Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2026

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar, A- og B-hluta stofnana, fyrir árið 2026 var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi miðvikudaginn 3. desember 2025. Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun.

Bókun bæjarstjórnar:

“Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur í sameiningu unnið að gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2026. Samstarf bæjarstjórnar hefur verið afar gott í þessari vinnu og samstaða verið um breytingar á gjaldskrám, styrkveitingar og framkvæmdaliði fyrir árið 2026.
Verðbólga ársins 2025 fór örlítið lækkandi, þó telur bæjarstjórn að ákveðnar gjaldskrárhækkanir séu samt sem áður nauðsynlegar til að vinna upp hluta af verðbólgu síðustu ára þó ekki sé það gert að fullu. Munu gjaldskrár Snæfellsbæjar því ekki hækka nema um 3-7% á árinu 2026.
Töluverðar breytingar urðu á árinu 2024 varðandi sorpmál í Snæfellsbæ og hefur gjaldskrá sorphirðu- og sorpeyðingargjalda frá þeim tíma tekið mið af því. Nú er komin reynsla á nýtt kerfi og ljóst að ekki þarf að hækka sorpgjaldskrá nema um 1,5% til að mæta auknum kostnaði sem er undir verðlagsþróun sem er ánægjulegt.
Gjaldskrá fasteignagjalda tekur breytingum milli ára og er álagningarprósenta A gjalda lækkuð úr 0,44% í 0,40%. Er þetta gert til að koma til móts við fasteignaeigendur þar sem hækkun á fasteignamati var töluvert umfram verðlagsþróun.
Afsláttur fasteignaskatts til elli- og örorkulífeyrisþega hækkar, ásamt viðmiðunarmörkum tekna, sem nemur launavísitölu ársins. Afslátturinn er áfram tekjutengdur og miðast við tekjuárið 2024, en 100% afsláttur hækkar úr 150.000.- í kr. 162.000.-.
Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt á milli ára eða 14,97%.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni verði hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka á árinu 2026 verða um 58,6 milljónir.
Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna og á árinu 2026 mun sá styrkur hækka úr kr. 35.000.- á barn í kr. 37.700.-, og fylgir hann launavísitölu.
Svigrúm til framkvæmda er ágætt. Áfram er gert er ráð fyrir því að stór hluti framkvæmda ársins 2026 verði í viðhaldsframkvæmdum á húsnæði bæjarins. Samtals er gert ráð fyrir tæpum 200 milljónum í viðhalds- og framkvæmdaverkefni á stofnunum bæjarins, ásamt öðrum smærri viðhalds- og framkvæmdarverkefnum. Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2026 verða hins vegar kaup á leiguíbúðum fyrir 60+ á Hellissandi en töluverð eftirspurn er eftir slíku húsnæði. Jafnframt verður farið í að endurnýja leiktæki á lóðum grunnskólans, leikskólans og leikvöllum.
Samtals er gert ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði rúmar 745 milljónir króna, þar af um 429 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og rúmar 316 milljónir hjá Hafnarsjóði.
Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er ágæt. Ekki hefur verið þörf á lántöku á undanförnum árum og á árinu 2026 er ekki gert ráð fyrir nýjum lántökum, þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Þetta þýðir að geta sveitarfélagsins til fjárfestinga eykst ár frá ári þar sem minna af fjármunum fer í afborganir af lánum og vexti sem er afar jákvætt og merki þess sést vel í þessari fjárhagsáætlun. Ef staðan verður áfram sú sama næstu árin þá ætti Snæfellsbær að verða skuldlaus af vaxtaberandi lánum sem yrði afar jákvætt fyrir samfélagið. Vaxtaberandi skuldir voru um síðustu áramót rétt um 920 millj. króna.
Fjárhagsáætlun ársins 2026 gerir ráð fyrir að skila rekstrarafgangi upp á rúmar 232 milljónir hjá A-hluta sjóðum, en um 375 milljónum hjá samanteknum A- og B-hluta sjóðum. Það þýðir að reksturinn gefur ákveðið svigrúm til fjárfestinga og því þarf ekki að fjármagna fjárfestingar ársins með lántöku. Skuldahlutfall Snæfellsbæjar í ársreikningi 2024 var 62% hjá A-hluta og 52,54% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta, en ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 43,11% hjá A-hluta og 33,1% fyrir samstæðuna. Þar sem engin lán voru tekin á árinu 2025 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar verði enn lægra í árslok 2025 og jafnframt er gert ráð fyrir að það lækki enn frekar á árinu 2026 þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni lántöku. Rétt er að taka fram að skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarfélaga ekki fara yfir 150% og telst því Snæfellsbær mjög vel statt sveitarfélag.
Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2026 eins og á undanförnum árum, eða um 316 milljónir króna. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán. Ekki er gert ráð fyrir neinum lántökum hjá Hafnarsjóði á árinu 2026.
Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár. Langtímakjarasamningar hafa verið gerðir við mörg starfsmannafélög á árinu 2025. Rekstur stofnana hefur gengið mjög vel á árinu 2025 og er að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar. Þó hafa launahækkanir haft töluverð áhrif á hækkun rekstrarútgjalda sem kom fram í rekstrinum á árinu 2025.
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram farsælt, því einungis þannig verður hægt að ná áfram góðum rekstri og veita góða þjónustu hjá sveitarfélaginu.
Auður Kjartansdóttir
Björn H Hilmarsson
Júníana Björg Óttarsdóttir
Eiríkur Böðvar Rúnarsson
Margrét Sif Sævarsdóttir
Fríða Sveinsdóttir
Patryk Zolobow“
 
Fjárhagsáætlun var að lokum lögð fram og samþykkt samhljóða.