Umhverfisvottun

Hafnargata 3, Stykkishólmur
Sími: 433 8100

Verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness er með aðsetur í Ráðhúsinu í Stykkishólmi.

Í Snæfellsbæ eru umhverfismál í öndvegi og lagt mikið upp úr því að vera leiðandi samfélag í úrbótum umhverfis- og samfélagsmála.

Áhersla Snæfellsbæjar á umhverfismál hófst árið 1998 með vinnu að Staðardagskrá 21. Árið 2000 veitti Umhverfisráðuneytið Snæfellsbæ verðlun fyrir að vera fyrst allra sveitarfélaga á Íslandi til að ljúka þeim áfanga. Árið 2003 hóf Snæfellsbær svo umhverfisvottunarferli EarthCheck og hefur sveitarfélagið hlotið alþjóðlega umhverfisvottun EarthCheck árlega síðan 2008 ásamt hinum sveitarfélögunum á Snæfellsnesi.

Það var við hátíðlega athöfn þann 8. júní 2008 sem Snæfellsnes hlaut umhverfisvottun að viðstöddum forseta Íslands, þingmönnum, sveitarstjórnarfólki og fjölda gesta. Áfanginn vakti verðskuldaða athygli innan lands sem utan þar sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi eru þau fyrstu í Evrópu til þess að hljóta slíka vottun og fjórða samfélagið í heiminum öllum.

Með samtakamætti á Snæfellsnesi fyrir nær tveimur áratugum hófu sveitarfélögin á Snæfellsnesi ferli til að fá umhverfisvottun, eitt af þeim skrefum sem hafa verið tekin til að standa vörð um náttúru og samfélag á svæðinu. Ferlið tók nokkur ár, skipulagsbreytingar og aðlaganir í takt við breyttan heim, og á endanum fengum við umhverfisvottun EarthCheck árið 2008. Vottunin er ekki árangurinn í sjálfu sér, heldur staðfesting á árangri og framförum.

Ferlið er umfangsmikið og felst helsta áskorunin í því að innleiða sjálfbærnistefnu sveitarfélaganna í alla starfsemi, hafa eftirlit með auðlindanotkun og vinna að úrbótum þar sem við getum gert betur.  Árlega þarf að vinna að endurnýjun vottunarinnar og er utanumhald þeirrar vinnu hjá verkefnastjóra umhverfisvottunar sem staðsettur er í Stykkishólmi. Til að eiga möguleika á endurnýjun þarf að sýna fram á stöðugar úrbætur í umhverfismálum. 

Óháður sérfræðingur metur árlega hvort gögn og starfsemi sveitarfélaganna uppfylli skilyrði endurnýjaðrar vottunar en kröfurnar sem uppfylla þarf aukast með ári hverju. Því er mikilvægt að halda góðu verki áfram og vinna stöðugt að úrbótum í átt til sjálfbærari starfsemi sveitarfélaganna fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Við hvetjum íbúa til að kynna sér Umhverfisvottun Snæfellsness og hafa samband við verkefnastjóra Umhverfisvottunar á Snæfellsnesi ef það vakna hugmyndir eða athugasemdir varðandi umhverfis- og samfélagsmál eða til að óska eftir frekari upplýsingum.

Getum við bætt efni þessarar síðu?