Þórður T. Stefánsson nýr hafnarstjóri Snæfellsbæjar

Á bæjarstjórnarfundi í gær, þriðjudaginn 18. nóvember, var staðfest tillaga ráðningarnefndar Snæfellsbæjar um að ráða Þórð Tryggva Stefánsson í starf hafnarstjóra Snæfellsbæjar.
Fyrir hönd Snæfellsbæjar sá Hagvangur um umsóknarferlið og mat á umsækjendum. Tólf umsóknir bárust um starfið en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka. Í framhaldi af mati Hagvangs fór ráðningarnefnd Snæfellsbæjar yfir þær umsóknir sem Hagvangur mælti með. Eftir viðtalsferli, var það svo niðurstaða ráðningarnefndarinnar að gera þá tillögu til bæjarstjórnar að ráða Þórð Tryggva Stefánsson í starf hafnarstjóra Snæfellsbæjar, og var sú tillaga samþykkt samhljóða.
Þórður Tryggvi er með háskólapróf í rekstrarfræðum frá Samvinnuháskólanum á Bifröst frá 1990. Hann hefur yfir þrjátíu ára reynslu af stjórnunar- og rekstrarstörfum, meðal annars sem skrifstofustjóri hjá Hraðfrystihúsi Ólafsvíkur hf., framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Snæfellsness hf. og sem sjálfstæður atvinnurekandi með rekstur Söluskála ÓK. Þórður hefur einnig setið í hafnarnefnd Snæfellsbæjar og gegnt þar formennsku um tíma.
Þórður Tryggvi hefur fengist við daglegan rekstur, fjármál, bókhald, mannaforráð, innkaup, viðhald tækja og samskipti við fjölbreyttan hóp viðskiptavina og samstarfsaðila. Þá hefur hann víðtæka þekkingu á atvinnu- og hafnarmálum í Snæfellsbæ og hefur í störfum sínum sýnt frumkvæði, metnað og leiðtogahæfni.
Snæfellsbær þakkar öllum umsækjendum kærlega fyrir þeirra áhuga og umsóknir og býður Þórð Tryggva Stefánsson velkominn til starfa sem hafnarstjóra.