Snæfellsbær styður hugmyndir Golfklúbbsins Jökuls um gerð nýs golfvallar

Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar var samþykkt, með fyrirvara um umsagnir umsagnaraðila, að veita Golfklúbbnum Jökli land í Rifi undir nýjan golfvöll. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í kjölfarið að veita Golfklúbbnum Jökli fjárframlag að upphæð kr. 10 milljónir á ári í fjögur ár til verkefnisins.

Stjórn golfklúbbsins er stórhuga og horfir til þess að nýi golfvöllurinn komi til með að leysa Fróðárvöll af hólmi innan fárra ára. Svæðið sem um ræðir liggur fyrir ofan Rif, milli flugvallar og Ingjaldshóls, með glæsilegt útsýni yfir Snæfellsjökul, Svöðufoss og aðrar náttúruperlur, að ógleymdum Breiðafirðinum.

Nánar má lesa um málið á vef Golfsambands Íslands. Myndir: Edwin Roald. Yfirlitsmynd af fyrirhuguðu golfvallarsvæði og frumdrög að golfvelli.