Menningarnefnd tekur þátt í aðventugleði og opnar Pakkhúsið

Verslanir og þjónustuaðilar í Ólafsvík, Hellissandi og Rifi taka höndum saman þann 23. nóvember næstkomandi og bjóða íbúum til aðventugleði í aðdraganda jóla. Er þetta þriðja árið í röð sem viðburðurinn fer fram.
 
Eins og segir í viðburði á Facebook hefur verið mikið líf í bænum á þessum degi síðustu ár og farin að skapast yndisleg hefð sem hringir inn jólin hjá mörgum hér í bæjarfélaginu.
 
Menningarnefnd Snæfellsbæjar tekur þátt í gleðinni og opnar dyrnar á Pakkhúsinu fyrir félagasamtökum og öðrum áhugasömum sem vilja taka þátt á þessum skemmtilega degi. Öll velkomin. Skráning á netfanginu menningarnefnd@snb.is.
 
Menningarnefnd setur Pakkhúsið í jólabúning, býður upp á jólaglögg og stuðlar að jólastemningu um allan bæ með tónlistaratriðum og uppákomum sem gleðja unga sem aldna.