Breytt fyrirkomulag í sorpmóttöku - rafræn klippikort taka gildi 1. febrúar
Frá og með 1. febrúar 2026 verður tekið upp breytt fyrirkomulag á móttökustöð Snæfellsbæjar við Ennisbraut í Ólafsvík og byrjað að nota rafræn klippikort við móttöku sorps.
Rafræna kortið veitir aðgang að móttökustöðinni. Hver fasteignaeigandi og sumarhúsaeigandi í Snæfellsbæ, sem greiðir sorphirðugjald, fær 12 eininga kort endurgjaldslaust til að nota yfir árið.
Þegar komið er með sorp á móttökustöð verður ökutæki vigtað og við brottför er hann vigtaður aftur. Kortið er síðan skannað af starfsmanni þar sem hvert “klipp” gildir fyrir 25 kg af sorpi. Á hverju korti eru 12 einingar sem duga fyrir 300 kg. Að öllu jöfnu ætti kortið að duga eigendum fasteigna allt árið og því felst enginn auka kostnaður fyrir kortið fyrir almenna íbúa. Ef kort klárast er hægt að kaupa auka kort á kostnaðarverði.
Hvernig á að nálgast kort?
Eftir 1. febrúar geta skráðir eigendur fasteigna sótt kortin sín inn á vefsíðuna jokulkort.is. Kortið er vistað í rafrænu veski í símtækjum, Apple Wallet og Samsung Wallet.
Skráðir eigendur fasteigna geta sent kort í fleiri síma, t.d. ef annar en eigandi fasteignar fer með sorp á móttökustöð.
Þeir aðilar sem ekki eru með rafrænt veski geta nálgast eintak í Ráðhúsi Snæfellsbæjar á opnunartíma.
Komugjald fellur niður samhliða breyttu fyrirkomulagi
Þann 1. febrúar 2026 fellur jafnframt úr gildi komugjald á móttökustöðina undir Enni, og því þurfa íbúar ekki að greiða 500 krónur við hverja heimsókn frá og með 1. febrúar. Það verður því hægt að kíkja í nytjahornið til að endurnýta hluti sem aðrir hafa skilað án þess að hafa áhyggjur af komugjaldinu.
Athygli vakin á bílvog
Athygli er vakin á því að bílvog sem vigtar ökutæki hleypur á 20 kg. Það þýðir að vigtun sem sýnir 20 kg mismun á ökutæki við komu og brottför er raunverulega einhvers staðar á bilinu 10-30 kg. Fyrirhugað er að stilla vogina þannig að hún hlaupi á 10 kg og sýni því nákvæmari tölu, og verður það gert á vormánuðum. Íbúar eru því hvattir að koma frekar með meira en minna í einu.
Nokkur atriði:
- Kortin eru sótt á jokulkort.is.
- Notandi notar rafræn skilríki til að innskrá sig.
- Skráðir eigendur fasteigna geta sótt kort sér að kostnaðarlausu.
- Kortið er vistað í rafrænu veski viðkomandi símtækis.
- Hægt er að deila rafrænu korti áfram, t.d. ef annar en eigandi fasteignar fer með sorp á móttökustöð, húsnæði er í leigu o.s.frv.
- Þeir aðilar sem ekki eru með rafrænt veski geta nálgast eintak í Ráðhúsi Snæfellsbæjar á opnunartíma.
Nánari upplýsingar veitir Smári Jónas Lúðvíksson í síma 433-6900 eða á netfanginu smarijonas@snb.is.
Nánar: