Árangur í sorpflokkun heimila milli ára

Nú þegar komið er rúmlega ár frá því að við hófum söfnun í fjórum úrgangsflokkum þá er alveg vert að horfa til baka og sjá hvort það hefur skilað einhverjum árangri.

Fyrirtækið Kubbur hefur sinnt söfnun á úrgangi frá því í júní 2024 og hefur það gengið nokkuð vel. En eins og gerist þegar verið er að skipta um þjónustuaðila hafa komið upp hnökrar sem þurft hefur að leysa. Við getum þó sagt að þetta er farið að ganga frekar smurt fyrir sig í dag. Við viljum þó hvetja íbúa til að hafa samband ef það kemur eitthvað upp svo við getum leyst það og bætt þjónustuna.

Í þessari yfirferð munum við horfa á söfnun heimilsúrgangs frá heimilum en við skiptum tölum um úrgangssöfnun alla jafna í fjóra flokka en það er söfnun frá heimilum, söfnun frá stofnunum, söfnun frá rekstraraðilum og söfnun í móttökustöð. Ástæðan fyrir þessari skiptingu er að þetta eru aðskilin verkefni í framkvæmd og mismikil aðkoma sveitarfélagsins þegar kemur til þess að ná árangri í minnkun og flokkun úrgangs.

Söfnun frá heimilum

Hvort það náist árangur í flokkun frá heimilum er nær alfarið undir íbúum sveitarfélagsins komið. Sveitarfélagið hefur sett upp kerfi þar sem reynt er að finna jafnvægi á milli kostnaðar og þjónustustigs en þar að auki þurfum við að uppfylla kröfur laga um sérsöfnun úrgangs. Samstarf við íbúa um að nýta kerfið þannig að það skili árangri skiptir miklu máli.

Ánægjulegt er því að segja frá því að það má marka árangur á milli ára í öllum flokkum sem við mælum. Samdráttur í magni á íbúa um 900g, eða úr 146,5 kg í 145,6 kg sem er vart marktækt en þó í rétta átt. En það sem er merkilegra er hlutfall almenns úrgangs sem fór í urðun úr 68% í 51% sem er gríðarlegur árangur á milli ára, og kemur okkur nær settum markmiðum um 45% hlutfall.

Ef við förum dýpra í tölurnar þá eru sést eftirfarandi. Frá júlí til desember 2024 safnaðist að meðaltali 20.717 kg á mánuði af sorpi. Í byrjun árs 2024 voru skráðir 1697 íbúar í Snæfellsbæ sem gefur okkur að það féllu til 12,2 kg af sorp á hvern íbúa í mánuði frá heimilum. Þar af voru 8,2 kg / 68% almennt, 1,4k g / 11% lífrænt, 1,7 kg / 14% pappi og 0,8 kg / plast.

Frá 1. janúar til 31. desember 2025 hefur að meðaltali safnast 21.208 kg af sorpi í mánuði. Í byrjun árs 2025 voru 1748 íbúar skráðir í sveitarfélaginu sem gefur okkur að það féllu til 12,1 kg af sorpi á íbúa í mánuði það sem af er árs. Þar af er 6,2 kg / 51% almennt, 1,9 kg / 17% lífrænt, 3,0 kg/ 25 % pappi og 1,0kg / 10% plast.

Til viðmiðunar þá skoðuðum við tölur um heildar úrgang sem safnaðist í Stykkishólmi fyrir allt árið 2024 en það var um 150 kg á íbúa og tölur fyrir höfuðborgarsvæðið yfir sama tímabil var um 152 kg.  

Árangur varðandi söfnun heimilisúrgangs við heimili í Snæfellsbæ er því góður í ofangreindum samanburði. Hlutfall almenns úrgangs í Snæfellsbæ er eins og áður segir um 51% frá söfnun við heimili.  Sama hlutfall í Stykkishólmi er 47% og í höfuðborginni er það 53%.

Það eru þó tækifæri til staðar, sérstaklega varðandi söfnun á lífrænu sorpi. Hlutfall lífræns úrgangs í Snæfellsbæ er 16%, til samanburðar er þetta hlutfall í Stykkishólmi 32% og á höfuðborgarsvæðinu 23%. Án þess að vera búin að greina samsetningu sorps úr okkar söfnun að fullu þá má álykta að við getum náð hlutfalli almenns sorps undir 45% með því að vera duglegri í að flokka lífrænt frá almennu sorpi.

Hafandi sagt það þá er ekki verið að óska eftir að fá meiri úrgang til að bæta hlutföllin. Ef þið eruð með önnur úrræði eins og jarðgerð endilega haldið því áfram. Úrgangsmagn skiptir meira máli en hlutföll úrgangs þegar upp er staðið.

Fyrir þá sem spyrja hverju þetta skilar fjárhagslega þá hefur sveitarfélagið fengið greitt 10.606.000 kr. frá Úrvinnslusjóði vegna góðs árangurs söfnunar frá heimilum 2025 sem er margfalt meira en árið á undan.

Við erum því farin að sjá fjárhagslegan árangur og á síðasta ári stóðu sorphirðugjöld undir kostnaði. Aðalsjóður greiddi því í fyrsta skipti ekki með sorphirðu. Sorphirðugjöld tóku því litlum breytingum á milli ára sem er gott. Með frekari þróun getum við jafnvel lækkað gjöld á komandi árum án þess að skerða þjónusti til almennra íbúa

Fyrir þá sem hafa gaman af töflum fylgir samantekt fyrir söfnun heimilisúrgangs það sem af er núgildandi þjónustusamning við Kubb.