Alþjóðleg tónlistar- og menningarhátíð á Hellissandi í tilefni almyrkva árið 2026

Á næsta ári verður fágætur atburður þegar almyrkvi verður sjáanlegur á sólu frá Íslandi í fyrsta skipti síðan 1954. Eftir almyrkva næsta árs liggur almyrkvi næst yfir Íslandi árið 2196.

Almyrkvi á sólu þykir ein stórfenglegasta sýning náttúrunnar og verða fáir staðir í heiminum betri til að njóta sýningarinnar á næsta ári en hér í Snæfellsbæ þar sem hann stendur einna lengst.

Undanfarna mánuði hefur Snæfellsbær því unnið að margvíslegum undirbúningi vegna atburðarins þar sem gert er ráð fyrir miklum fjölda gesta sem sækir bæinn heim af þessu tilefni. Eitt af þeim verkefnum sem Snæfellsbær hefur unnið að vegna almyrkvans er samstarf við skipuleggjendur alþjóðlegrar fjögurra daga tónlistar- og menningarhátíðar sem haldin verður á Hellissandi 12. - 15. ágúst 2026.

Hátíðin heitir Iceland Eclipse og mun bjóða upp á dagskrá með innlendu og erlendu tónlistarfólki, listasýningum, fyrirlestrum, vinnustofum og fræðslu. Skipuleggjendur hátíðarinnar eru þaulvanir viðburðahaldi bæði hérlendis og erlendis og leggja mikið upp úr öryggi og upplifun gesta. Gert er ráð fyrir 3-5000 gestum á hátíðina og er miðasala farin af stað á heimasíðu hátíðarinnar.

Við hlökkum til að vinna áfram að þessari hátíð með skipuleggjendum og taka á móti gestum hennar á næsta ári.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Kristinn Jónasson, bæjarstjóra, og Heimir Berg Vilhjálmsson, markaðs- og upplýsingafulltrúa, ásamt hluta af teyminu sem kemur að skipulagi hátíðarinnar.

Nánar: