Jólaljós tendruð í Snæfellsbæ
Jólaljós verða tendruð við hátíðlega athöfn fyrsta sunnudag í aðventu í Snæfellsbæ.
Að þessu sinni verður nýr háttur hafður á skipulagi viðburðarins og skipulagður einn stærri jóla- og aðventuviðburður þar sem fjölskyldur sameinast um að tendra jólaljósin og dansa í kringum jólatréð í Ólafsvík. Á næsta ári verður leikurinn endurtekinn og viðburðurinn haldinn á Hellissandi.
Viðburðurinn hefst kl. 16:00. Pakkhúsið verður klætt í jólabúning og verður opið gestum og gangandi. Í Pakkhúsinu verða ljúffengar ristaðar möndlur og rjúkandi heitt kakó frá Lilju á Skerinu og notaleg jólastemning.
Jón Haukur syngur jólalög, jólasveinar koma í heimsókn og dansað verður í kringum jólatréð áður en bræðurnir rauðklæddu seilast í pokana eftir góðgæti fyrir yngri kynslóðina.
Verið velkomin í huggulega fjölskyldu- og aðventustund í aðdraganda jóla.