Vilborg Lilja nýr skólastjóri Grunnskóla Snæfellsbæjar

Vilborg Lilja Stefánsdóttir hefur verið ráðin í starf skólastjóra Grunnskóla Snæfellsbæjar.

Þann 13. mars sl. var staða skólastjóra við Grunnskóla Snæfellsbæjar auglýst. Snæfellsbær fékk ráðgjafafyrirtækið Hagvang til að halda utan um ráðningarferlið. Að loknu umsóknarferli höfðu fimm góðar umsóknir borist um starfið. Eftir að hafa metið umsóknir og viðtöl mælti Hagvangur með því að Vilborg Lilja yrði ráðin í starf skólastjóra, sem bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti samhljóða.

Vilborg Lilja er fædd og uppalin í Ólafsvík og öllum hnútum kunnug í skólastarfi í sveitarfélaginu, en hún hefur starfað við Grunnskóla Snæfellsbæjar, og áður Grunnskólann í Ólafsvík, frá 1992 með hléum. Á þessum tíma hefur Vilborg Lilja viðað að sér víðtækri reynslu í menntunar- og uppeldisfræðum sem nýtist í nýju starfi, m.a. sem íþróttakennari, umsjónarkennari, danskennari, sérkennari, deildarstjóri og aðstoðarskólastjóri.

Hilmar Már Arason, fráfarandi skólastjóri, hefur leitt skólastarfið í Grunnskóla Snæfellsbæjar undanfarinn áratug og tekur Vilborg Lilja við góðu búi þar sem er hvort tveggja metnaðarfullt starfsfólk og fullt hús efnilegra nemenda.

Við óskum Vilborgu Lilju til hamingju með stöðuna og bjóðum hana að sjálfsögðu hjartanlega velkomna til nýrra starfa hjá Snæfellsbæ.