Rauðhóll - heilsueflandi fjölskylduviðburður

Snæfellsbær er heilsueflandi samfélag og vill stuðla að auknu framboði á gæðastundum fyrir fjölskyldufólk í okkar fallegu náttúrupardís. Með það að leiðarljósi hafa verið skipulagðir mánaðarlegir viðburðir í haust og vetur þar sem einblínt er á hreyfingu og samverustund utandyra fyrir alla fjölskylduna í Snæfellsbæ. Tilgangur þeirra er að hvetja íbúa til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Viðburðirnir eru fjölskylduvænir og henta öllum aldurshópum. Þátttakendur eru vinsamlega beðnir að klæða sig eftir veðri og koma með nesti og drykki fyrir sína fjölskyldu.

Viðburðirnir eru skipulagðir af Kristfríði Rós Stefánsdóttur, íþrótta- og æskulýðsfulltrúa, og Önnu Þóru Böðvarsdóttur.

Meðfylgjandi er dagskrá viðburða. Það verða einnig viðburðir eftir áramót og verða þeir kynntir þegar nær dregur.

Dagskrá:

7. september 2025 - Saxhóll

Fjallganga og lautarferð á Saxhól með nesti, telja tröppur o.fl. Mæting við Saxhól.

4. október 2025 - Rauðhóll

Fjallganga og lautarferð á Rauðhól. Mæting á bílastæði við Rauðhól.

9. nóvember - Ólafsvík

Lautarferð og gengið um Lambafell, Krókabrekku og Bekk undir Enni þar sem farið er yfir sögu Ólafsvíkur.

Desember - Tröð og Réttarskógur

Grillaðir sykurpúðar, heitt kakó, jólasögur o.fl. í samráði við skógræktarfélögin.

Getum við bætt efni þessarar síðu?